Strax á mánudagsmorguninn eftir að fyrsti og stærsti jarðskjálftinn reið yfir í landamærahéruðum Tyrklands og Sýrlands hófu systursamtök Hjálparstarfs kirkjunnar á staðnum mat á því hvernig bregðast ætti við með sem skilvirkustum hætti. Á sama tíma var hjálpargögnum dreift; mat, lyfjum, teppum og hlýjum klæðnaði. Þá strax var ljóst að þörfin fyrir neyðaraðstoð var gríðarleg. Upplýsingar frá hamfarasvæðunum staðfesta nú að þörfin er margföld miðað við þá stöðu sem viðbragðsaðilar héldu í upphafi að væri við að eiga.

Þora ekki heim

Hjálparstarfinu berast upplýsingar beint frá systursamstökum á vettvangi. Allir tala um hversu risavaxið verkefnið sé og enn þá reyna menn að finna fólk á lífi í rústunum sem hvarvetna blasa við. Íbúar á hamfarasvæðunum veigra sér við því að fara inn í byggingar sem er margar illa farnar þó þær standi uppi. Með öðrum orðum þá þorir fólk ekki heim til sín og hefst við á götum úti, í fjölskyldubílnum ef kostur er á eða í neyðarskýlum. Allir óttast eftirskjálfta sem gætu fellt þær byggingar sem þó standa.

Flestar fréttir sem berast eru í eina átt. Dánartölur hækka stöðugt og virðast þó aðeins greina frá upphafinu af einhverju enn þá verra. Ekki er lengur talað um tugþúsundir manna sem þurfa að takast á við nær ómögulegar aðstæður heldur neyð hundruð þúsunda manna.

Endalaus verkefni

Alls hafa átta systursamtök Hjálparstarfsins innan Act Alliance (Alþjóðlegt hjálparstarf kirkna) hafið hjálparstarf í Tyrklandi og Sýrlandi, en innan Act Alliance eru nú 137 hjálparstofnanir sem starfa í 127 löndum.

Verkefnin eru af margvíslegum toga. Í Aleppo hefur ein þessara systurstofnana komið á fót 232 neyðarskýlum. Skýlin eru í kirkjum, moskum, skólum eða samkomuhúsum hvers konar sem stóðu af sér skjálftana. Þar hafa þeir sem þurfa aðgang að dýnum, teppum, heitum mat en matarskortur er orðinn tilfinnanlegur. Sérstaklega þarf niðursoðinn mat og tilbúna rétti þar sem matreiðsla er víða útilokuð.

Dauðagildrur

Nefnd verkefni eru á lista allra en valdir aðilar á svæðinu hafa á sínum snærum teymi verkfræðinga sem vinna að því að meta ástand stórra sem smárra bygginga, helst í þeim tilgangi að meta hvort þau séu nothæf eftir skjálftanna og ekki einfaldlega dauðagildrur. Reynt er að bæta við þessar sveitir verkfræðinga því aðkallandi að finna varanlegt skjól fyrir þúsundir og aftur þúsundir íbúa sem eiga hvergi höfði sínu að halla.

Einnig er unnið að því að setja upp barnvænleg skýli fyrir þau börn sem hafa misst eða sakna foreldra sinna eða annarra aðstandenda. Starfsfólk þessara skýla vinnur jafnframt beint að því með öllum ráðum að sameina ástvini sem hafa farið á mis í hamförunum.

Fregnir hafa borist frá Swiss Church Aid (HEKS), sem starfa í Damaskus, höfuðborg Sýrlands um að þau vinni að því að styðja við þær fjölskyldur sem þó hafa náð að halda hópinn. Hjálparstarf kirkjunnar í Finnlandi hefur þegar afhent á þriðja þúsund fjölskyldna í Aleppo klæðnað, lyf og aðrar helstu nauðþurftir fyrir næstu daga.

Hjálparstarf Lútherska heimssambandsins, sem er einn nánasti samstarfsaðili Hjálparstarfs kirkjunnar á Íslandi, hefur frá fyrsta degi starfað að fjölbreyttum verkefnum og hefur sambandið þegar hafið skipulagningu hjálparstarfs til næstu mánaða.

Hjálparstarfið mun leggja til að lágmarki ellefu milljónir króna til hjálparstarfsins. Systurstofnanir Hjálparstarfsins innan Alþjóðlegs hjálparstarfs kirkna – ACT Alliance – munu ráðstafa söfnunarfénu þar sem neyðin er sárust.

Neyðin er slík að aðstoð þarf frá öllum sem hana geta veitt.

Hægt er að leggja starfinu lið með eftirfarandi hætti:

Hér er auðvelt að gefa stakt framlag til söfnunar Hjálparstarfsins.

Leggja inn á söfnunarreikning númer 0334-26-886; kennitala: 450670-0499

Hringja í söfnunarsímann 907 2003 (2500 krónur)

 

Styrkja