Leita þarf aftur til hrunáranna til að finna fleiri umsóknir um skólaaðstoð en bárust félagsráðgjöfum Hjálparstarfsins í haust. Nú nálgast jólin óðfluga en aldrei er þörfin fyrir neyðaraðstoð Hjálparstarfsins eins mikil og einmitt í aðdraganda hátíðanna.

Vilborg Oddsdóttir, félagsráðgjafi og verkefnastýra innlendra verkefna hjá Hjálparstarfinu, metur stöðuna svo að ekkert bendi í raun til annars en enn þrengi að þeim hópi sem var fyrir í viðkvæmri stöðu. Upphaf skólaársins í haust sýnir þetta glöggt en 127 fjölskyldur fengu skólatöskur, skólagögn, fatnað og fleira í upphafi skólaársins. Þessa stuðnings nutu á fjórða hundrað börn.

Staðan nú endurspeglar því fyrri ár þegar starfsfólk Hjálparstarfsins varð með áþreifanlegum hætti vart við að þrengingar fólks voru að aukast jafn og þétt. Í fyrrahaust og haustið á undan leitaði áþekkur hópur fólks eftir aðstoð í upphafi skólaársins. Haustið 2023 voru börnin 253 úr 109 fjölskyldum sem fengu aðstoð. Þá höfðu í rúmlega 50 ára sögu Hjálparstarfsins aldrei borist jafn margar umsóknir um neyðaraðstoð í upphafi skólaárs, að hrunárunum undanteknum. Til samanburðar sótti 81 fjölskylda um sambærilega aðstoð árið 2021. Nú sem fyrr er hækkun húsnæðiskostnaðar og matvöruverðs helsta skýringin á fjölgun umsókna milli ára.

Þörfin aldrei eins áberandi

Hjálparstarf kirkjunnar veitir fólki sem býr við fátækt á Íslandi efnislegan stuðning og félagslega ráðgjöf allt árið. Neyðaraðstoð felst fyrst og fremst í að aðstoða fólk til matarinnkaupa en einnig er veitt annars konar aðstoð.

Aldrei er þörfin eins áberandi og um jólin en starfsmenn Hjálparstarfsins eru þegar byrjaðir að undirbúa úthlutun í aðdraganda hátíðanna, sem er annasamasti tími ársins. Gera má ráð fyrir að fólk sem til Hjálparstarfsins verði síst færri en undanfarin ár. Margir eru í mjög erfiðri stöðu og því ekkert sem bendir til annars en að stór hópur leiti stuðnings fyrir komandi jól eins og undanfarin ár. Fjöldi umsókna við upphaf skólastarfs í haust bendir eindregið í þá átt.

Vandi fjölskyldna vex

Á dögunum ræddi Vilborg málefni fátækra fjölskyldna við Rauða borð Samstöðvarinnar. Hún sagðist ekki beint sjá fjölgun í þeim hópi sem leitar til Hjálparstarfsins, heldur að þau sem koma til að leita sér aðstoðar séu í miklu meiri vanda en áður. Vandi þeirra fjölskyldna sem hafa átt undir högg að sækja vex.

Um stöðu þessara fjölskyldna sagði Vilborg:

„Það sem mér finnst sárast að sjá er þetta vonleysi sem fylgir þeirri upplifun að tilheyra ekki því samfélagi sem þú lifir í. Um leið og þú hættir að tilheyra, að þér finnst þú ekki gera gagn og skipta engu máli, þá er alveg hræðilega erfitt að taka þátt í samfélaginu sem þú ert þó hluti af. Það er þessi hópur sem er að stækka. Það er breytingin sem ég sé í mínum störfum og samtali við fólk sem til okkar leitar. Það er sárt að heyra fólk segja: Ég hef ekkert að gefa. Ég skipti engu máli. Það hlustar enginn á mig. Þetta er að aukast og er hættulegt fyrir hvaða samfélag sem er. Á þessu verður að vinna markvisst áður en vandamálið vex okkur yfir höfuð og við missum þetta frá okkur,“ segir Vilborg og bætir við að hluti lausnarinnar geti verið hlutastarf eða staður til að sinna áhugamálum og allt þar á milli. Að fólk sem glímir við fátækt, til lengri eða skemmri tíma, hafi hlutverk í samfélaginu og upplifi sig velkomið og jafngilt öllum öðrum.

En hvað er til ráða?

„Ef ég ætti að nefna það fyrsta sem þarf að leysa þá eru það húsnæðismálin. Húsnæðismarkaðurinn er að fara með fólk – svo einfalt er það. Það er stærsta áskorunin sem vIð stöndum frammi fyrir sem samfélag og þarf að vinna í að leysa tafarlaust. Það þarf að byggja félagslegt húsnæði og við verðum að vera djörf, t.d. með því að byggja tímabundið bráðabirgðahúsnæði fyrir ungt fólk og efnaminna á dýrum lóðum, sem er húsnæði sem má svo taka upp og færa þegar framkvæmdir hefjast,“ segir Vilborg og bendir á að þetta hefur verið gert í Kaupmannahöfn með góðum árangri.

„Við verðum að þora að hugsa út fyrir rammann og hugsa í nýjum lausnum. Það sem við höfum verið að gera er ekki að skila því sem til þarf,“ segir Vilborg.

En vandi þeirra sem býr við fátækt er oft á tíðum djúpstæður og tengist áföllum fyrr á ævinni. Þetta einkennir stóran hóp fólks, alls ekki alla, sem kemur til Hjálparstarfsins. Það þarf því að breyta miklu til að koma í veg fyrir fátækt, einmannaleika og félagslega einangrun.

„Einmannaleikinn er hræðilegur fylgifiskur fátæktar. Síðan myndast vítahringur sem börn sem búa við fátækt ná aldrei að rjúfa. Við erum að sjá þriðju og fjórðu kynslóð barna, einstaklinga, sem eru föst í fátæktargildru með öllu sem því fylgir. Þá erum við að tala um skólagöngu, styttri lífslíkur og fleira. Þetta eru ekki bara krónur og aurar heldur tekur fátæktin yfir öll lífsgæði fjölskyldna. Þetta sjáum við ítrekað í okkar daglegu störfum.“

Styrkja