Á aðventunni ár hvert koma margir góðir gestir hér við á skrifstofu Hjálparstarfsins. Hún Katrín Sigríður Þorsteinsdóttir Bachmann, framkvæmdastjóri 1881 Góðgerðafélags, kom í dag færandi hendi og afhenti Hjálparstarfinu eina og hálfa milljón króna sem rennur til þeirra sem leita til okkar fyrir jólin.

Jól fyrir alla

1881 Góðgerðafélag ákvað fyrir stuttu að styðja sérstaklega við starfsemi Hjálparstarfs kirkjunnar í desembermánuði. Það var gert undir yfirskriftinni Jól fyrir alla en með því að kaupa jólastjörnu 1881 eða gjafabréf gat fólk stutt við að fjölskyldur sem minna mega sín við matarkaup fyrir jólin og jólagjafir til barna sinna. Söfnunin tókst frábærlega vel eins og söfnunarupphæðin sem Hjálparstarfið fékk afhenta sýnir og sannar.

Jólastjarna 1881 Góðgerðafélags

Um langt árabil hefur Hjálparstarfið aðstoðað fólk sem býr við kröpp kjör svo það geti gert sér dagamun yfir hátíðirnar. Þennan mikilvæga þátt í innanlandsstarfi Hjálparstarfsins vildi 1881 Góðgerðafélag styðja nú um jólin.

Þess má geta að fyrir síðustu jól fengu 1.783 fjölskyldur aðstoð frá Hjálparstarfinu, til að kaupa jólamatinn og annað sem tengist hátíðunum. Þess utan fengu 3.140  börn jólagjafir fyrir tilstuðlan Hjálparstarfsins. Ekki liggur fyrir hversu margir leituðu til okkar núna á aðventunni en tilfinning félagsráðgjafa Hjálparstarfsins er að töluvert fleiri hafi þurft aðstoð nú. Aðstoðin, sem fyrr, tekur mið af aðstæðum hvers og eins og er fyrst og fremst í formi inneignarkorta fyrir matvöru.

1881 Góðgerðafélag

1881 er góðgerðafélag sem vill stuðla að auknu jafnrétti og jöfnum tækifærum fólks, óháð fjárhag og félagslegum bakgrunni. Á heimasíðu félagsins segir:

„Við söfnum fé og styðjum verkefni sem ríma við stefnu 1881, þar sem draumurinn um jöfn tækifæri barna og fjölbreytni í samfélaginu er í aðalhlutverki. Félagið er óhagnaðardrifið og öllum ágóða af fjáröflunarverkefnum er úthlutað til einstaklinga eða hópa, í samræmi við stefnu og markmið 1881.“

Þar segir jafnframt að nafn félagsins vísar til byggingarárs Alþingishússins við Austurvöll, þar sem leikreglur samfélagsins eru mótaðar.

„Með nafngiftinni viljum við minna á mikilvægi lýðræðisins, stuðla að jákvæðum viðhorfum í garð Alþingis og veita því jákvætt aðhald og hvatningu. Í okkar huga er samhverfan í byggingarári þinghússins táknræn, þar sem tveir síðari stafirnir spegla þá fyrri og skapa táknrænt jafnvægi. Með stofnun 1881 viljum við leggja okkar lóð á vogarskálar, við þróun samfélags fyrir alla. Að félaginu stendur breiður hópur bakhjarla, fyrirtækja og einstaklinga, sem leggja félaginu til fjármagn, þjónustu og sérþekkingu. 1881 er vettvangur fyrir fólk sem vill gefa af sér.

Styrkja